Vinna framundan!

Jæja kæru vinir, þá er hvítasunnan löngu liðin og ekkert blogg! Ég verð nú eiginlega bara að viðurkenna það að ástæðan er sennilegast "örmögnun" eftir prófatörn og ritgerðin um gjöf heilags anda tók þar mest á þannig að ég held ég salti frásögn af afrakstri ritgerðarinnarShocking. Þótt prófin séu á enda þá hef ég ekki slegið slöku við í náminu, því að núna í dag lauk fjögurra daga námskeiði á Biskupsstofu sem tilheyrir starfsnámi prest-og djáknanema. Námskeiðið var gott og gangnlegt, og samferðarmennirnir frábærir. Á morgun tekur síðan við "ærsl og fjör" á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ!!! Ég hlakka bara til hreinlega. Ég hef svolítið einbeitt mér að yngri kynslóðunum undanfarið og var hreinlega farin að sakna eldri kynslóðarinnar. Góð stund í þeirra félagsskap skilur mann alltaf eftir fróðari um lífið og tilveruna. Þau eru búin að feta þann veg sem maður sjálfur er að feta, búin að ganga í gegnum allt það sem manni sjálfum virðist svo yfirþyrmandi á stundum og stendur ósköp bláeygur gagnvart. Þá er svo gott að hlusta og þiggja góð ráð þó auðvitað hver spili eftir sínu höfði. Við erum víst ekki að finna upp hjólið alltaf og ótrúlegt hvað við eigum sammerkt í lífsins göngu, og það er svo mikilvægt að fá tækifæri til þess að miðla sinni reynslu og vita að hún getur gagnast og nýst öðrum.

Sumarið leggst vel í mig. Ég  ætla að  ferðast aðeins út fyrir  landsteinana og kíkja á ráðstefnu  EYCE (Ecumenical Youth Counsil in Europe) á N-Írlandi í júní. Ráðstefnan ber yfirskriftina "Tearing down the walls" og fjallar um möguleika kirkjunnar á að koma inn í sáttarumleitanir í stríðum, og mikilvægi skjótra sátta í slíkum aðstæðum. Þetta verður skemmtilegt. Svolítið skrítið að fara ein, en á móti kemur að þá kynnist maður hinum betur, sem er auðvitað tilgangur ferðarinnar líka! Ég á að mæta með íslenska fánann og sýnishorn af íslenskum mat og klæðnaði. Ætli maður grípi ekki með sér eins og nokkrar skyrdósir og harðfisk. Ég smeygi mér svo kannski í ullarpeysu, hver veit!!

 Þannig að það er fimm daga húsmæðraorlof á döfinniWizard

 Ég ætla að láta hér fylgja eitt ljóð eftir hana Huldu sem er svo lýsandi um það sem ég sagði hér áðan um lífsleiðina.

 

Æska.

 

Æskan á vorljetta vængi,

víðförla drauma,

lífsgleði, löngun og harma,

sem líða með blænum;

vilja, sem vaggast á bárum,

vonar og ótta,

tár, sem að tindra og þorna

við trúarskin hjartans.

 

Vegirnir liggja svo víða;

hún velur þann efsta,

greiðfæru götunni hafnar,

hin grýtta er hærri.

Straumarnir stefna að hafi,

stormarnir bera

fleyið á ókyrrum örmum

unz áttin er fundin.

 

Ljósblik og skuggar um lífið

líða og hverfa,

þar til að æskunnar eldur

í elliblæ kulnar.

Þið, sem að fylgt hafið fyrri

til fjallanna bláu,

vitið, hve vandhitt er gatan,

hin villta ei dæmið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband