2.5.2008 | 18:59
Loksins Sumar!!!
Gleðilegt sumar!!
Mér sýnist ég hafa verið full svartsýn hérna í síðustu færslu þegar ég taldi enga von vera fyrir komu vorsins. Ég tek öll mín orð til baka og er nú á leiðinni í Blómaval að kaupa mér lauka og gróðursetningarskóflu! Það varð víst allt í stíl þessa páskana og það er yndislegt!!! Yndisleg þessi birta sem blossar upp innra með manni og fær mann til að átta sig á þungleika vetrarins. Þá finnur maður hvað lífið er þakkarvert og mikil gjöf. Hljóðin í umhverfinu eru orðin önnur og það heyrast einhver kunnuleg hljóð sem hafa verið frosin í vetrinum og þessi hljómur vekur með manni eftirvæntingu eftir upprisu náttúrunnar, lyktar af brumi og blómum, hvin í laufi og hlýja vinda. Ís og kámugar hendur á litlum krílum, gúmmílykt af sundkútum og söndugar tær. Í stað stjarnanna birtist okkur sólin sem umvefur okkur hlýjum geislum sínum. Sumarið er yndislegur tími.
Ýmislegt hefur gerst undanfarið í "pólitíkinni". Félag guðfræðinema státar af glæstum formanni þetta árið, eins og svo mörg ár á undan. Ég er kannski sérstaklega stolt af þessum formanni þar sem hann er frændi minn, svona sérlega glæsilegur eins og gengur og gerist í fjölskyldunni náttúrulega og hreint út sagt vel gefinn með endemum. Mér líst vel á komandi vetur með hann við stjórnvölinn og ég veit að það gera fleiri. Ég fékk svo líka kosningu inn í stjórn ÆSKR til næstu tveggja ára. Ég hlakka mikið til að komast í kynni við þeirra störf og fá að vera ein af ráðinu. Þarna er glæsilegt og gott fólk á ferð. Í sumar ætla ég svo að vera í skemmtanastjórn á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Það verður enn ein reynslan í bankann og ég hlakka til að fá að spreyta mig á þeim vettvangi. Alltaf gaman að vinna eitthvað svona "lifandi" starf, sem er svolítið öfugt við það sem stefnan var sett á í vor...en kannski breytist það eitthvað næsta sumar, hver veit!! Ég er að hugsa um að einbeita mér líka svolítið að guðfræðinni áfram í sumar og æfa mig að skrifa miningarræður og hugleiðingar. Hver veit nema einhver fái að njóta afrakstusins á komandi vetri það kemur í ljós.
Litla kéllingin mín hún Auður Rós varð fimm ára síðasta laugardag. Búin að hlakka til þess síðustu tvö árin. Nú er hún loksins orðin fimm!! En hin er ennþá bara eins árs, en er eins og fimm manns, þannig að það vegur á móti!
Þormóður er búinn að skila af sér meistaraprófsritgerðinni sinni. hann er því að ljúka sinni fimm ára háskólagöngu. Það er ekki laust við öfund hérna megin og frekar erfitt að sitja og skrifa ritgerð og læra fyrir próf. En það sem er jákvætt er að þá fá stelpurnar að njóta pabba síns á próftímanum sem er bara gott mál!.
Ég þakka þér Guð fyrir allt sem ég á.
ég þakka þér fyrir lífið sem þú hefur gefið mér og litlu lífin sem þú veittir okkur,
gleðigjafana og prakkarana yndislegu.
ég þakka þér fyrir hverja þá árstíð sem þú hefur gefið mér að fá að upplifa og njóta,
og fyrir hverja þá árstíð sem nú liðin er.
Vaktu yfir mér, börnum mínum, unnusta, fjölskyldu, tengdafjölskyldu og vinum.
Vertu með okkur á gleðistundum og vertu okkur styrkur á þeim erfiðu. Blessaðu heimili mitt og
vaktu yfir kirkju þinni og leiddu hana í öllu hennar starfi.
Gefðu að við minnumst þeirrar gjafar sem þú hefur gefið okkur og virðum það líf sem þú hefur veitt
okkur.
Þess bið ég í Jesú nafni.
Amen.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.